þessa helgi leit svona út:
Skotist að kaupa spænskar orðabækur fyrir unglinginn (hvernig stendur eiginlega á því að barnið getur ekki farið að læra mál sem orðabókafríkin á heimilinu eiga þegar bækur yfir? Við erum mjög dugleg við að segja nei við alls kyns bókakaupum en orðabækur stöndumst við ekki. Hér eru til örugglega 8 enskar af ýmsum gerðum, 4-5 danskar, 3 ítalskar, 2 íslenskar, 2 franskar, þýsk, tékknesk og rússnesk. Og núna sem sagt 2 spænskar)
Sigling um sundinblá, Jón Lárus er í siglingaklúbbnum í Samskipum og við getum fengið Litlafellið lánað, reyndar ennþá með skipstjóra, pungaprófið ekki alveg í höfn. Sigldum að mynni Hvalfjarðar, þar voru veiddir einir 10 fiskar, nokkrir í viðbót komu á færi en var sleppt. Enduðum á því að sigla kring um Viðey, að Þerney og svo aftur í bæinn. Gátum ekki kvartað undan veðrinu, gat eiginlega ekki verið betra.
Heim með aflann, skipt um föt, kvöldmatur hjá tengdamömmu, stórmeistari lambalæris með meðlæti. Mmmm. Stakk svo af til að fara á kóræfingu í kvöld.
Þar kom upptakari og Mugison og við kláruðum að taka upp seinna lagið – ef lag skyldi kalla. Effektar, eiginlega frekar. Ég fékk að leika sög (sem sagt svona – spilað á sög, ekki sagað), við öskruðum og létum öllum illum hljóðum. Verður ekki smá spennandi að heyra.
Verður ágætt að fara í vinnuna til að hvíla sig smá.
Annars kemur hér ljósmyndari í fyrramálið til að taka mynd af heita brauðinu. Eins gott að það fáist snittubrauð á mánudagsmorgnum í bakaríum. Hmmm.
Nýlegar athugasemdir