Sarpur fyrir 29. júlí, 2006

skelkuð

vorum við hér heima í dag þegar litli gutti hvarf.

Hann er nýfarinn að fá að fara sjálfur út í Dreka að kaupa sér nammipoka stöku sinnum, í dag engin undantekning. Við á fullu að taka til og þrífa. Örugglega kominn hálftími þegar ég tek allt í einu eftir því að gaurinn er ekkert kominn til baka. Ég út í sjoppu, jújú, þangað hafði komið lítill ljóshærður gutti með gleraugu og keypt sér nammi fyrir 150 kall. Passar. Svona 20 mínútur síðan.

úff!

Leitað á öllum mögulegum og ómögulegum stöðum, náttúrlega rólóinn hér bak við og leikskólalóðin á móti. Enginn Finnur. Skiptum liði, Jón fór í dótabúðirnar á Laugaveginum og Vínberið, ég í Krambúð og þaðan upp á Hallgrímstorg, á Grænuborgarlóð, í styttugarðinn við Hnitbjörg. Algerlega Finnlaust svæði.

Enginn heima hjá besta vininum á móti. Heilmikið vesen við að finna út símanúmer pabbans, hann svo ekki með símann opinn. Grafin upp leikskóladeildarsímaskráin frá síðasta hausti, ég fer í að hringja í alla. Ekkert kom út úr því.

Þarna er liðinn um klukkutími frá því hann hvarf.

Hringt í lögregluna. Þeir lofa að senda bíl til að svipast um eftir sex ára gutta í svörtum buxum og grárri peysu, ljóshærðum með gleraugu.

Síðasta sem mér datt í hug var að það býr lítil stelpa hér í þarnæsta húsi. Ekki trúlegt að Finnur hefði farið inn til hennar, ég veit aldrei til að þau hafi leikið sér neitt saman. Ákveð að fara samt og banka upp á. Þegar ég kem að dyrunum heyri ég kunnuglega rödd innan frá. Jú jú, þar var minn litli maður á leiðinni niður tröppurnar. Hafði ekki verið hjá stelpunni heldur hafði hitt nýja strákinn á leikskólanum (kom um miðjan vetur og var þ.a.l. ekki í símaskránni), sá var í heimsókn hjá frænku sinni sem býr í þessu húsi. Höfðum ekki hugmynd um þessa tengingu. Fólkið hafði ekkert athugað að láta okkur vita. Get ekki álasað þeim, þetta kom einu sinni fyrir okkur líka. Jón Lárus segir frá líka á sinni síðu.

Ekki skemmtileg lífsreynsla.

Matarboðið tókst annars vel, þó við hefðum þurft að lækka viðmiðunarstigið á hreinleikastuðlinum örlítið.

fann annars

snilldar útvarpsstöð á netinu; hún er hér. Heitir Helios og er the most esoteric radio station on the whole Internet samkvæmt Kevin netkunningja mínum og samtónlistarnörd. Viss um að sumir lesendur mínir hér hefðu gaman af henni. Auglýsist sem sagt hér með.

íbúðin

er algerlega í rúst. Drasl og skítur og viðbjóður

Þannig að ég gerði það eina í stöðunni. Bauð fólki í mat í kvöld. Maturinn kominn í ofninn og tiltekt á fullt. Meira en hálf fjölskyldan ekki í bænum/á landinu þannig að við buðum þeim fjórum sem eftir eru. Langsteikt svínarif, sem sagt sullumatur í boði. Í uppskriftinni segir meira að segja að það sé erfitt að borða þetta með puttunum, hvað þá hníf og gaffli. Svo er að vita hvort þetta slær út rifjunum á Hereford, þau eru ágæt.

Arrg. Gersamlega að klikka á þessu! Býður maður ekki upp á bjór með svona mat? Kannski Jón nenni að hlaupa út í Austurríki og kaupa bjór.


bland í poka

teljari

  • 373.924 heimsóknir

dagatal

júlí 2006
S M F V F F S
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
3031  

sagan endalausa